
Tvö umfangsmikil fíkniefnamál eru nú til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en í þeim hefur verið lagt hald á 53 kg af hassi og níu lítra af kókaínvökva. Fíkniefnin voru falin í sitthvorri bifreiðinni sem báðar komu til Seyðisfjarðar með farþegaskipinu Norræna um miðjan síðasta mánuð.
Í framhaldinu voru fjórir handteknir, tveir bílstjórar og tveir sem tóku við vörunni. Mennirnir eru allir erlendir ríkisborgarar án tengsla við Ísland og hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan málin komu upp, sem rennur út í næstu viku.
Lögreglan segir að málin séu afrakstur góðrar samvinnu milli lögregluliða á höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi, Tollgæslunnar, lögreglunnar á Norðurlandi eystra og sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Þá vekur lögreglan athygli á þremur öðrum fíkniefnamálum á árinu þar sem haldlögð voru 10 kg af kókaíni, 15 kg af ketamíni og 5 kg af MDMA, einnig í tengslum við farþegaskipið Norræna.

Komment