
Hanna Katrín Friðriksdóttir atvinnuráðherra segir ljóst að nýtt strandveiðifrumvarp muni ekki ná í gegn fyrir sumarið
Hún sagði í viðtali við RÚV að lokunum ríkisstjórnarfundi að hún muni setja reglugerð til að tryggja strandveiði í 48 daga í sumar. Þá muni frumvarpið tryggja eftirlit og utanumhald.
„Við erum að tryggja ákveðinn fyrirsjáanleika með það hvenær þarf að sækja um leyfið. Við erum að tryggja að sá sem veiðir eigi 51 prósent eða meira í bátnum til þess að tryggja eins og við getum að þetta skilji eftir í heimahöfn eða heimabyggð eins og ætlunin er.“
Einhverjar efasemdir hafa verið uppi um gagnsemi strandveiða og skrifaði Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, ritgerð árið 2021 þar sem sagt var að „strandveiðarnar séu ekki efnahagslega skynsamlegar vegna þess að það væri mun ódýrara að veiða fiskinn með skipum sem þegar eru innan aflamarkskerfisins.“
Hanna Katrín segist vonast eftir að sátt muni nást um strandveiðar með þessum skrefum.
Komment