
Héraðsdómur Suðurlands hefur boðað suðurkóreskan ríkisborgara, Jisu Yang, fyrir dóm þann 28. ágúst næstkomandi vegna gruns um alvarlegt umferðarlagabrot.
Samkvæmt ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi er Yang sakaður um að hafa ekið bifreiðinni KEU62 á 149 km hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði var 90 km/klst. Brot þetta átti sér stað á Suðurlandsvegi við Laugardælaveg í Flóahreppi föstudaginn 2. maí síðastliðinn.
Í ákæru kemur fram að brotið varði við 37. og 95. grein umferðarlaga nr. 77/2019, og er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 99. grein sömu laga.
Dómþingið fer fram fimmtudaginn 28. ágúst kl. 11:36 í dómsal Héraðsdóms Suðurlands að Austurvegi 4, Selfossi. Verði ákærði ekki við boðun má gera ráð fyrir að dómur verði kveðinn upp að honum fjarstöddum, og fjarvera hans metin sem viðurkenning á brotinu.
Héraðsdómur Suðurlands gaf út fyrirkallið þann 14. júlí og undirritaði Sólveig Ingadóttir aðstoðarmaður dómara skjölin.
Komment