
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður segir Palestínumenn vera „Untermenchen“ í eigin landi, rétt eins og gyðingar í Evrópu á tímum nasista.
Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson skrifaði Facebook-færslu í gær þar sem hann talar um handboltaleiki íslenska kvennalandsliðsins gegn Ísrael sem fram fóru á Ásvöllum í Hafnarfirði fyrir helgi. Segir hann „Stelpurnar okkar“ hafa verið settar í erfiða stöðu með því að þurfa að spila á móti Ísrael.
„Ísland tekur þátt í mótum á vegum alþjóðlegra íþróttasambanda, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Það var auðvitað erfið staða sem íslenzku handboltastelpurnar voru settar í að keppa við Israel. Israel hefði komið út sem sigurvegari hefði Ísland neitað að keppa þar sem Israel hefði þá farið á HM.“
Sveinn Andri segir það sjálfsagt að útiloka eigi íþróttalið frá Ísrael frá öllum íþróttakeppnum og nefnið útilokun íþróttafólks frá Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar sem sambærilegt dæmi. Segir hann stjórnvöld á Ísrael engu betri en ráðamenn Suður-Afríku á árum áður. Segir hann að lokum Palestínumenn vera Untermenchen í eigin landi, líkt og gyðingar í Evrópu forðum.
„En að því sögðu, þá á að sjálfsögðu að útiloka íþróttalið frá Israel frá öllum íþróttakeppnum. Sú ákvörðun þarf hins vegar að koma frá hinni alþjóðlegu íþróttahreyfingu, en ekki einstökum liðum.
Útilokun íþróttafólks frá Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar var rétt og árangursrík. Stjórnvöldu í Israel eru engu betri en ráðamenn í Pretóríu forðum; hópmorð og brot gegn mannúð eru í gangi á Gaza og stjórnvöld brjóta öll mannréttindi á Vesturbakkanum og halda uppi svívirðilegri aðskilnaðarstefnu. Palestínumenn eru Untermenschen í eigin landi eins og gyðingar í Evrópu á tímum nasista.“
Komment