
Sveinn Andri Sveinsson gagnrýnir ríkissaksóknara harðlega í nýrri Facebook-færslu.
Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson er harðorður í garð ríkissaksóknara í nýrri Facebook-færslu vegna frétta af aukinni hryðjuverkaógn frá einstaklingum eða hópum sem aðhyllist hægri öfgahyggju, sem kemur frá greiningardeild ríkislögreglustjóra. Sveinn Andri var verjandi annars mannanna í hryðjuverkamálinu svokallaða en þeir voru báðir sýknaðir.
Færsla Sveins Andra hefst á eftirfarandi hátt: „Nýverið óskaði Ríkissaksóknari eftir því við Hæstarétt Íslands að rétturinn veitti ákæruvaldinu leyfi til þess að áfrýja sýknudómi Landsréttar í svokölluðu hryðjuverkamáli.
Þráfaldlega hefur Ríkislögreglustjóri, sem startaði þessum arfavitlausa málarekstri, reynt að hafa áhrif á meðferð málsins hjá dómstólum með glórulausum skýrslum, yfirlýsingum og hættumati hryðjuverka, en sem betur fer ekki haft erindi sem erfiði.“
Lögmaðurinn hlekkjaði við færsluna frétt af aukinni hryðjuverkaógn á landinu og segir nýjasta dæmið vera „ósvífna tilraun ríkislögreglustjóra til að hafa áhrif á Hæstarétt“:
„Hér getur að síðan að sjá nýjasta dæmið; frekar purrkunarlausa og ósvífna tilraun Ríkislögreglustjóra til þess að hafa áhrif á Hæstarétt.
Það hættulegasta við aðgerðir og yfirlýsingar Ríkislögreglustjóra er að ef og þegar raunverulegir hryðjuverkamenn áforma að láta til sín taka, mun stór hluti almennings ekki taka viðvaranir lögreglu trúanlegar.
Úlfur, úlfur!“
Komment