
Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Múlaþings hafa sameinast um að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þá áhersluröðun sem fram kemur í nýjum drögum að samgönguáætlun ríkisins. Þar þyki óviðunandi að engar stórar framkvæmdir séu fyrirhugaðar á svæðinu á næstu árum og að þar með séu fyrri loforð um nýtingu tekna af hækkun veiðigjalda ekki efnd. Þetta kemur fram í frétt Austurfréttar.
Afstaðan kemur fram í sameiginlegri bókun sem samþykkt var í bæjarráði Fjarðabyggðar í síðustu viku og í sveitarstjórn Múlaþings á fundi í dag. Sá fundur átti upphaflega að fara fram í síðustu viku en var frestað vegna óvissu um færð yfir Fjarðarheiði. Til að undirstrika óánægju sína mættu sveitarstjórnarfulltrúar Múlaþings klæddir svörtu.
Sérstaklega hafa áform um að færa Fjarðarheiðargöng af forgangslista og setja þau á athugunarstig vakið hörð viðbrögð. Þá lýsir Múlaþing einnig óánægju með að framkvæmdir við Axarveg, sem þegar er fullhannaður, verði ekki hafnar fyrr en seint á fyrsta tímabili áætlunarinnar og að þeim ljúki ekki fyrr en á því næsta. Í Fjarðabyggð eru jafnframt gagnrýnisraddir um að ekki sé gert ráð fyrir meiri uppbyggingu á Suðurfjarðavegi.
Í bókuninni er samgönguáætlunin, sem kynnt var fyrir um tveimur vikum, sögð fela í sér „kalda kveðju“ til Austurlands, þar sem fjórðungurinn sé í raun settur til hliðar og „frystur“ í áætlunargerðinni.
Bent er á að frá árinu 2019 hafi Fjarðarheiðargöng verið efst á lista jarðgangaverkefna og að þau hafi haldið þeirri stöðu þegar Seyðisfjörður sameinaðist Múlaþingi. Í bókuninni er lögð áhersla á að allar breytingar á slíkri áætlun verði að byggjast á faglegum rökum og traustum forsendum.
Samgönguáætlunin sé lykilverkfæri til að tryggja skýra og fyrirsjáanlega uppbyggingu innviða og að þróun sveitarfélaga eigi ekki að ráðast af breytilegum pólitískum áherslum ráðherra. Án skýrrar og trúverðugrar forgangsröðunar sé erfitt fyrir sveitarfélög og atvinnulíf að skipuleggja langtímauppbyggingu.
Í niðurlagi bókunarinnar segir að það sé með öllu óásættanlegt að engar stórframkvæmdir séu á fyrsta tímabili áætlunarinnar fyrir Austurland. Slík niðurstaða gangi gegn yfirlýsingum um að hækkun veiðigjalda myndi skila sér aftur til byggðanna og skapa svigrúm til innviðafjárfestinga. Þar sé Austurland næst í röð stórra jarðgangaverkefna og ekki verði við það unað að litið sé fram hjá þeirri staðreynd.

Komment