
Fjallaleiðsögumaðurinn og kokkurinn Einar Sveinn Westlund er gestur í hlaðvarpsþættinum Sofum Saman en þættinum er ætlað að ræða um svefn á opinn máta og þau vandamál sem sumir glíma í við þeim heimi.
„Ég hrýt rosalega hátt og rosalega mikið. Og þetta hefur verið svolítið vandamál við að vera fjallaleiðsögumaður – að vera uppi á fjöllum og gista í tjöldum. Ég er aldrei vinsæll, sérstaklega þegar við erum að gista á sama stað í tvær nætur í röð. Það er alltaf horft á mann á morgnana og það finnst mér mjög óþægilegt,“ segir Einar meðal annars í þættinum. Hann segist vinna stundum 16 tíma og vaknar svo eldsnemma til að gera morgunmat fyrir alla.
„Það hefur ekki endilega alltaf verið auðveldast í heimi. Síðan hefur ekki hjálpað mér að síðan ég man eftir mér, bara á morgnana, þá er það sem ég kalla zombí–mode. Klukkutími venjulega, þar sem ég vil ekki að neinn tali við mig. Ég get ekki svarað neinu. Ég er eiginlega bara gagnslaus á morgnana. Eftir að hafa verið á Ítalíu byrjaði ég að drekka einn espresso á morgnana, færði mig svo yfir í tvöfaldan espresso og svo yfir í tvo tvöfalda espresso. Og þetta er bara til að geta haft mannleg samskipti,“ segir Einar.
Hann segir einnig frá því að hann hafi hitt tannlækni frá Utah í Bandaríkjunum sem benti honum á svefngóm og óhætt er að segja að sá gómur hafi hjálpað Einari.
„Þetta er eiginlega eins og að hafa lifað í myrkri og svo loksins komið í ljósið. Það er ótrúlegt hvað það breytir miklu að fá góðan svefn.“

Komment