Þann 5. desember var undirrituð viljayfirlýsing milli Mosfellsbæjar og Desjamýri 11 ehf. um opnun nýrrar sýningar um sögu ullariðnaðarins í Álafosskvos en greint er frá þessu í tilkynningu frá Mosfellsbæ
Samhliða voru kynntar fyrirhugaðar endurbætur á verslun og nýrri veitingarsölu sem stendur til að opna þar og gert er ráð fyrir fjölbreyttu viðburðarhaldi á staðnum.
Sýningin sem áformað er að opna verður um sögu Álafosskvosar og ullariðnaðar á Íslandi og verður hún staðsett í verslunar- og athafnarými verksmiðjuhússins að Álafossvegi 23 þar sem Álafossverslunin hefur verið til húsa. Samkvæmt Mosfellsbæ mun sú verslun mun loka í mars næstkomandi en þá hefjast endurbætur á húsnæðinu og uppbygging sýningarinnar. Forhönnun breytinga hefur verið unnin af Basalt Arkitektum og er rýmið hannað jafnt fyrir nærsamfélagið sem og gesti. Þar verður barnahorn, aðstaða fyrir prjónanámskeið, fjölnota svæði fyrir tónleika og viðburði sem stuðlar að félagslegum samskiptum, sköpunargleði og menningarlegri þátttöku. Myndir af forhönnun verkefnisins eru nú til sýnis í Álafossversluninni.
Desjamýri 11 ehf. ber allan kostnað vegna sýningarinnar og mun sjá um hönnun og framkvæmd hennar í samráði við Mosfellsbæ. Viljayfirlýsingin gildir til fimm ára, á þeim tíma mun bærinn greiða leigu af sýningunni og verður sýningin eign bæjarins að sýningartíma loknum.
Álafosskvos er miðstöð lista og menningar í Mosfellsbæ og er markmiðið með endurbótunum og væntanlegri sýningu að lyfta ásýnd svæðisins, varðveita sögu þess og efla Álafosskvos sem áfangastað fyrir ferðamenn. Þá er gert ráð fyrir að nemendur í skólum Mosfellsbæjar geti heimsótt sýninguna á vegum skólanna án endurgjalds.


Komment