
Illugi Jökulsson telur löngu kominn tími til að Reykjavíkurborg að draga Palestínufánann að húni við ráðhúsið.
Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson skrifaði færslu í dag þar sem hann færir rök fyrir því að ráðhús Reykjavíkur ætti að sjá sóma sinn í að draga fána Palestínu að húni, líkt og gert var til að sýna Úkraínumönnum stuðning, þegar Rússar réðust á landið.
„Palestína er sjálfstætt ríki sem Ísland hefur viðurkennt síðan Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir tóku um það djarfmannlega ákvörðun fyrir meira en áratug. Nú síðustu árin hefur þetta ríki, einkum en ekki eingöngu Gasasvæðið, sætt æ harðari árásum eins mesta herveldis í heimi sem sparar hvergi stríðsglæpina og hermdarverkin. Rétt eins og Reykjavíkurborg sýnir stuðning okkar Reykvíkinga við Úkraínumenn sem sætt hafa grimmilegri innrás Rússa, þá er kominn tími til að borgin sýni stuðning okkar við Palestínumenn með því að draga Palestínufánann að húni við Ráðhúsið.“
Þannig hefst færsla Illuga sem hefur heldur betur vakið lukku en yfir 200 manns hefur líkað við hana. Illugi segist því næst ekki skilja af hverju borgarstjórinn hafi ekki fyrir löngu verið búin að setja fánann upp. Segir hann einnig að borgaryfirvöld þurfi einnig að hugsa út í það hvað fleira borgin getur gert til að styðja við Gaza-búa:
„Það er satt að segja algjört lágmark og ég skil ekki af hverju Heiða Björk borgarstjóri er ekki búin að láta gera það fyrir löngu. Svo ættu borgarstýrur í Ráðhúsinu að leggjast í þunga þanka um hvað fleira og meira Reykjavík gæti gert. Er til dæmis hægt að efna til samráðs vestrænna höfuðborga um að fordæma barnadrápin í Gasaborg og nágrenni? Jafnvel gera sameiginlega út fólk til að ... ja, ég veit svosem ekki alveg hvað, en eitthvað hlýtur það að vera. Það er verið að fremja þjóðarmorð á þjóð sem við viðurkennum sem sjálfstæða, og við getum ekki látið sem ekkert sé.“
Komment