
Björgvin Haukur Jóhannsson, tannsmiður, er látinn eftir erfið veikindi. Hann lést í fyrrinótt á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Haukur fæddist 17. janúar 1953 og hefði orðið 73 ára nú um helgina. Akranes.net sagði frá andlátinu.
Eiginkona hans var Ragnheiður Haraldsdóttir. Börn þeirra eru Harpa, eiginkona Sigurðar Veigars Bjarnasonar, Vala og Haukur Heiðar, sem er kvæntur Hörpu Hauksdóttur. Barnabörn þeirra Ragnheiðar og Hauks eru níu talsins og auk þess áttu þau eitt barnabarnabarn.
Foreldrar Hauks voru Fanney Oddgeirsdóttir og Jóhann Konráðsson. Þau eignuðust sjö börn og var Haukur yngstur systkinanna. Systkini hans eru Heiða Hrönn, Anna María, Jóhann Már, Svavar Hákon og Kristján, en Konráð Oddgeir er látinn.
Haukur var á yngri árum þekktur og afreksmikill íþróttamaður. Hann lék knattspyrnu með liðum Íþróttabandalags Akureyrar og KA, en naut mestrar frægðar fyrir árangur sinn í alpagreinum skíðaíþrótta, einkum svigi og stórsvigi. Hann varð margfaldur Íslandsmeistari í greininni, keppti á tveimur heimsmeistaramótum og tók þátt í Ólympíuleikunum í Innsbruck árið 1976.
Útför Björgvins Hauks Jóhannssonar fer fram frá Akureyrarkirkju föstudaginn 23. janúar.

Komment