
Í gær var rauðri málningu skellt á vegg fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna á Engjateig. Aðgerðarsinnarnir máluðu einnig blóðrauð handaför á vegginn og límdu miða þar sem Ísrael er mótmælt á sama vegg.
Undanfarið hafa aðgerðarsinnar og stuðningsmenn Palestínu verið að færa sig upp á skaftið, en á dögunum sagði Mannlíf frá því að rauðri málningu hafi verið hellt í litla tjörn fyrir utan utanríkisráðuneyti Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Gaza málað rauðum lit á gangstéttina. Samkvæmt heimildum Mannlífs eru aðgerðarsinnarnir hvergi nærri hættir enda þjóðarmorð Ísraela í fullum gangi á Gaza og á Vesturbakkanum.
Bandaríkin hafa verið harðlega gagnrýnd um allan heim fyrir þeirra þátt í þjóðarmorðinu, þar sem þeir sjá Ísraelum að mestu fyrir vopnum sem beitt er á saklausa borgara Gaza og eru helstu bandamenn Ísraelsríkis.
Að minnsta kosti 60.000 manns hafa verið drepnir á Gaza frá 7. október 2023, þar af um 20.000 börn. Talið er þó að talan sé mun hærri enda fjölmargir sem enn eru grafnir undir rústum húsa á svæðinu.
Komment