
Bogi Ágústsson fréttamaður sagðist ekki trúa starfsháttum leiðsögumanna þegar hann deildi frásögn Unu Margrétar Jónsdóttur á Facebook. Um helgina deildi Una Margrét, dagskrárgerðarkona hjá RÚV, sögu um hvernig hún hefði staðið leiðsögumann á Austurvelli af því að segja ferðamönnum ósannindi um hvernig Íslendingur hlutu sjálfstæði. Þá hafi leiðsögumaðurinn haldið því fram að Íslendingar hafi nýtt tækifærið á meðan Danmörk var hernumin af Þjóðverjum og lýst yfir sjálfstæði án þess að kóngurinn gæti gripið inn í. Una Margrét segist hafa leiðrétt leiðsögumanninn en á móti hafi hann orðið bálreiður og kallað á eftir henni „Má aldrei hafa neitt gaman?“.
Frásögn Unu Margrétar hefur vakið mikla athygli. Meðal annars deildi Bogi Ágústsson færslunni hennar í Facebook hópinn Bakland ferðaþjónustunnar. „Maður trúir ekki að svona bull sé kennt í Leiðsöguskólanum en þetta er ekki í fyrsta sinn og verður ekki í það síðasta þar sem maður heyrir af leiðsögumönnum fara með hreint fleipur,“ skrifaði Bogi við færsluna.
Frásögn Unu Margrétar Jónsdóttur
Í fyrradag kom ég að ferðamannahópi á Austurvelli rétt í þeirri andrá þegar leiðsögumaðurinn var að ljúka við þá lygasögu sem vinsælt er að segja erlendum ferðamönnum: að íslenska þjóðin hefði orðið sjálfstæð af því að Þjóðverjar hernámu Danmörku á stríðsárunum, Íslendingar hefðu þá notað tækifærið og lýst yfir sjálfstæði. „Og kóngurinn komst ekki einu sinni að þessu fyrr en ári seinna,“ sagði unga stúlkan sem þarna var leiðsögumaður.
Ég kvaddi mér hljóðs, í óþökk leiðsögumannsins, og sagði ferðamönnunum að þetta væri ekki rétt, stofnun íslenska lýðveldisins 1944 hefði verið afleiðing af fullveldissamningnum sem Íslendingar gerðu við Dani árið 1918, en samkvæmt honum mátti slíta tengslum landanna 25 árum síðar ef mikill meirihluti fengist fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tók líka fram að auðvitað hefði Kristján X Danakonungur vitað af þessu, hann hefði meira að segja sent skeyti sem lesið var á lýðveldishátíðinni 17. júní 1944.
Svo gekk ég burt, en unga stúlkan var bálreið og öskraði á eftir mér:
„Má aldrei hafa neitt gaman?!!!“
Hún virtist sem sagt líta á sig sem eins konar skemmtikraft og þar sem lygasögurnar gátu komið ferðamönnunum til að hlæja fannst henni sjálfsagt að taka þær fram yfir sannleikann.
Fólk virðist ósammála í athugasemdum um hvort frásögn leiðsögumannsins eigi rétt á sér. Mörg vilja meina að leiðsögumenn eiga að vera skemmtikraftar og megi fríska upp á söguna, svo lengi sem er ekki farið í algjörar sögufalsanir.
Þessi sérstaka útgáfa af sögunni virðist hafa orðið algengari frásögn undanfarið þar sem hún er einföld og skemmtileg. Raunin er hins vegar allt önnur en ekki síður skemmtilegri. Ísland fékk fullveldi árið 1918 með sambandslögunum. Fullvalda þjóð með konung Danmerkur sem þjóðarleiðtoga. Í sambandslögum var ákvæði um að hægt væri að segja upp sambandinu eftir 25 ár en skilyrðin virtust nánast óraunhæf fyrir Ísland að geta sagt upp einhliða. Þjóðaratkvæðagreiðsla var nauðsynleg með 75% kjörsókn og 75% atkvæða þurftu að samþykkja riftinguna. Svona há kjörsókn hafði aldrei náðst á Íslandi á þeim tíma og mörgum þótti ólíklegt að hægt væri að ná þessum skilyrðum. Það var hins vegar metkjörsókn þegar loks kom að því að kjósa um sjálfstæði Íslands og nýja stjórnarskrá árið 1944. Kjörsóknin 98% og 95% samþykktu að Ísland lýsti yfir sjálfstæði. Með þessu sýndu Íslendingar seiglu sína í sjálfstæðisbaráttunni.
Í nýrri færslu bregst Una Margrét Jónsdóttir við gagnrýni sem hún hefur fengið í kjölfar athyglinnar sem fyrri færsla hennar fékk. Þar á meðal hafði leiðsögumaður sagt að Una Margrét hafi oft kallað hann og aðra leiðsögumenn vitleysinga og að hún hafi áreitt ferðamenn. „Þetta eru einfaldlega ósannindi,“ sagði Una Margrét í færslunni.
Hún segir frá því hvernig árið 2023 varð hún fyrst vitni að leiðsögumanni á Austurvelli segja ferðamönnum að Jón Sigurðsson hafi fyrstur sent Danakonungi bréf í seinni heimsstyrjöld að biðja um sjálfstæði Íslendinga. „Mig rak í rogastans að heyra því haldið fram að maður sem dó árið 1879 hefði skrifað bréf á 20. öld. Leiðsögumaðurinn var ung stúlka og ég vildi vera tillitssöm, hugsaði að hér væri líklega um sérstakt tilvik að ræða. Ég tók hana því til hliðar og sagði henni einslega að Jón Sigurðsson hefði verið uppi á 19. öld. Þá kom í ljós að stúlkan hélt að styttan væri af Jónasi Hallgrímssyni,“ skrifar Una Margrét. Eftir þetta atvik hefur hún lagt oftar við hlustir þegar leiðsögumenn leiddu erlenda ferðamenn um Austurvöll og segir sögufalsanir algengar. Þá finnst henni einnig ljóst frá athugasemdum við færsluna í Bakland ferðaþjónustunnar að menntaðir leiðsögumenn telji að þeir megi fara frjálst með söguna fyrir afþreyingargildi. „Sem sagt: allstór hluti íslenskra leiðsögumanna sér ekkert athugavert við það að ljúga að útlendingum og fá borgað fyrir það. Það finnst mér sannarlega dapurlegt,“ segir Una Margrét í færslunni.
Komment