
Öll börn sem verða 18 mánaða eða eldri 1. september næstkomandi, og eru með umsókn í borgarrekna leikskóla, hafa fengið boð um vistun samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
„Þá hefur verið hægt að verða við óskum hjá flestum þeirra sem sóttu um flutning á milli leikskóla. Að auki hefur yngri börnum sem eru í forgangi í úthlutun verið boðin vistun,“ segir í henni.
„Þegar fyrsta hluta úthlutunar leikskólaplássa lauk þann 14. apríl höfðu foreldrar 2081 barns fengið boð og þegið vistun í borgarrekna og sjálfstætt starfandi leikskóla. 1778 börnum hefur verið úthlutað plássi í leikskóla sem eru reknir af Reykjavíkurborg.
Í haust munu bætast við 165 pláss og verður boðið í þau eftir því sem gengur að manna lausar stöður. Ný pláss bætast við leikskólana Klettaborg og Klambra, auk þess sem aftur verður hægt að taka við fleiri börnum þegar framkvæmdum lýkur í Hálsaskógi, Brákarborg og gömlu Garðaborg sem nú er orðinn hluti af leikskólanum Jörfa.“
Borgin hefur á undanförnum árum hlotið mikla gagnrýni fyrir leikskólamálin en mygluvandamál hafa komið upp í einhverjum skólum borgarinnar. Þá hefur mönnun gengið nokkuð illa. Fyrir þremur árum hafði borgin lofað öllum börnum, 12 mánaða og eldri, leikskólaplássi en það gekk ekki eftir.
Komment