
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur skipað starfshóp til að yfirfara reglur um dvalarleyfi á Íslandi en greint er frá þessu í tilkynningu frá ráðuneyti hennar. Markmiðið verður að fá betri yfirsýn yfir þann hóp sem sækir um útgefið dvalarleyfi á Íslandi.
„Við höfum allt of litla yfirsýn yfir dvalarleyfismálin. Við verðum að líta til Norðurlandanna í þessum efnum og kanna hvernig best sé að samræma dvalarleyfi við þau. Þetta kerfi hefur að mörgu leyti verið í ólestri undanfarin ár, verið mjög kostnaðarsamt og löngu kominn tími til að yfirfara það. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu og er þess fullviss að hún muni leiða til góðs fyrir land og þjóð,“ sagði dómsmálaráðherra. „Það er ánægjulegt að rjúfa þá kyrrstöðu sem hefur verið í þessum málum undanfarin sjö ár.“
Umsóknir um dvalarleyfi á Íslandi tvöfölduðust milli áranna 2020 og 2024, úr 5.559 í 10.234 talsins. Erlendum ríkisborgurum sem hingað flytjast hefur fjölgað ár frá ári og eru ríkisborgarar ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins engin undantekning. Ekki er gert ráð fyrir öðru en að sú þróun muni halda áfram að sögn stjórnvalda.
„Við höfum til dæmis ekkert sérstakt dvalarleyfi fyrir mansalsþolendur og ég tel að nauðsynlegt sé að breyta því,” sagði Þorbjörg.
Komment