
Alls gista átta einstaklingar í klefum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina en 69 mál voru skráð í kerfum hennar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Hér koma nokkur dæmi.
Lögreglan hugðist stöðva ökumann í Reykjavík en ökumaðurinn hafði ekki áhuga á að stoppa og hófst því stutt eftirför. Endaði sú eftirför á því að ökumaðurinn ók á ljósastaur og slasaðist við það. Var hann fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar.
Tilkynning barst um tvo menn sem fóru inn á lokað svæði við verslunarkjarna í Reykjavík. fundust þeir að lokum uppi í efstu hæðum en reyndist vera um að ræða 17 og 18 ára drengi. Sögðust þeir hafa verið að bjarga ketti sem rataði á svæðið og voru þeir með kött í höndunum því til sönnunar. Þeim yngri var ekið heim til foreldra sinna en sá eldri gekk í burtu að sjálfstæðum, enda kominn í fullorðinna manna tölu. Kötturinn var einnig frjáls ferða sinna.
Þá var aðili handtekinn eftir að hann neitaði að borga fyrir far í leigubíl. Var hann á perunni, streyttist á móti lögreglumönnunum og endaði í fangaklefa, þar sem hann reyndi að bíta lögreglumenn.
Í Garðabæ var múrsteini kastað inn um rúðu á útidyrahurð í íbúðahúsi en málið er í rannsókn.
Að lokum segir frá í dagbókinni, tilkynningu til lögreglunnar á Vínlandleið, um eld í ökutæki. Reyndist vera um mikinn reyk að ræða sem kom út úr vélarrýminu. Minnkaði hann síðan og var ekki þörf á frekari aðgerðum.

Komment