
Helga Vala Helgadóttir lögmaður leiðréttir frétt RÚV í nýlegri Facebook-færslu.
Lögmaðurinn og þingkonan fyrrverandi, Helga Vala Helgadóttir var til viðtals í fréttum RÚV vegna mótmælanna sem fram fóru á Austurvelli í gær.
Þar var verið að mótmæla fyrirhugaðri brottvísun 17 ára kólumbísks drengs frá Íslandi. Fannst Helgu Völu viðtalið hafa verið klippt á sérstökum stað. Helga Vala skrifaði:
„Vegna viðtals sem var birt við mig í sjónvarpsfréttum Rúv rétt í þessu vegna máls kólumbísks drengs sem leitar hér skjóls tel ég rétt að leiðrétta þar sem fréttin var klippt á sérstökum stað. Drengurinn á jú foreldra í Kólumbíu, en það sem ég sagði í framhaldi var að foreldrarnir geta ekki annast hann. Það hafa barnaverndaryfirvöld staðfest. Vildi leiðrétta þetta.“
Kærunefnd útlendingamála hefur nýverið úrskurðað að Oscar Anders Bocanegra Florez, 17 ára, skuli vísað aftur til heimalands síns, Kólumbíu. Oscar hefur hins vegar lýst eindregnum vilja til að dvelja áfram á Íslandi þar sem hann hefur skapað sér traust tengsl, m.a. við fósturfjölskyldu sína. Hann óttast jafnframt um líf sitt ef honum verður gert að snúa aftur til Kólumbíu.
Komment