
Jóhanna Guðrún Skaptason Wilson lést í Winnipeg í Manitoba í Kanada föstudaginn 2. janúar síðastliðinn, 106 ára gömul. Mbl.is segir frá andlátinu.
Jóhanna fæddist 15. nóvember árið 1919. Foreldrar hennar voru Jóhanna Guðrún Símonardóttir, fædd á Gimli í Manitoba árið 1878, og Jósef Björn Skaptason, fæddur í Húnavatnssýslu árið 1873. Móðir hennar var hálfsystir dr. Valtýs Guðmundssonar, alþingismanns og prófessors við Kaupmannahafnarháskóla. Afi og amma Jóhönnu í móðurætt, Símon Símonarson og Valdís Guðmundsdóttir, voru meðal fyrstu Íslendinga sem fluttu til Kanada árið 1874, og tók Valdís á móti fyrsta íslenska barninu sem fæddist á Gimli. Faðir Jóhönnu lést árið 1950 og móðir hennar árið 1960.
Móðir og dóttir létu bæði félagsmál sig miklu varða og áttu ríkan þátt í varðveislu minningar íslenskra hermanna. Móðirin stóð að útgáfu minningarrita um íslenska hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni, en Jóhanna yngri sinnti sambærilegu starfi vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Jóhanna eldri var helsti hvatamaður að stofnun Jón Sigurdsson-kvenfélagsins, kvennadeildar IODE, árið 1916 og gegndi þar formennsku fyrstu 17 árin. Jóhanna yngri var virk í félaginu í meira en átta áratugi, þar af formaður tvisvar. Árið 2023 hlaut hún sérstaka viðurkenningu frá IODE Canada fyrir 80 ára félagsaðild. Í tilefni 100 ára afmælis félagsins var henni haldið heiðurssamkvæmi og var hún þá heiðruð sem elsti félaginn. Spurð um langlífið svaraði hún í viðtali við Morgunblaðið árið 2019 að hún ætti það „íslenska þorskalýsinu“ að þakka.
Jóhanna var um árabil virk í Félagi háskólakvenna í Winnipeg. Hún lauk prófi í heimilisfræði frá Manitoba-háskóla árið 1945 og kenndi fagið í mörg ár. Hún var jafnframt áberandi í íslensku samfélagi borgarinnar, gegndi meðal annars hlutverki fjallkonu líkt og móðir hennar, og heimsótti Ísland fjórtán sinnum á árunum 1964 til 2015. Fyrir störf sín hlaut hún fjölmargar viðurkenningar og var heiðursfélagi í nokkrum félögum.
Eiginmaður Jóhönnu var Alexander Francis „Frank“ Wilson, sem lést árið 2001. Þau eignuðust þrjú börn, Joanne, Carolyn og Frank.

Komment