
Kári Stefánsson, fyrrverandi forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna viðtals hans við Stefán Einar Stefánsson spjallþáttarstjórnanda í Spursmálum á mbl.is.
Yfirlýsing Kára virðist vera svar hans við frétt á mbl.is upp úr viðtalinu, þar sem segir frá því að Kári hafi óttast að lyfjarisinn Amgen, sem á Íslenska erfðagreiningu, njósni um starfsfólk sitt. Kári dregur í land orð sín í viðtalinu um mögulegar njósnir Amgens á starfsfólki Íslenskrar erfðagreiningar. Kári lét orðin falla á sviði „fyrir framan 200 íhaldsmenn“ í svokölluðum bókaklúbbi Spursmála um bók George Orwell, 1984, sem fjallar um dystópískt alræðissamfélag.
„Stefán Einar Stefánsson hringdi í mig fyrir nokkrum vikum og bað mig að koma í bókaklúbb sem hann stjórnar að ræða 1984 eftir George Orwell,“ segir Kári í yfirlýsingunni.
„Ég féllst á að koma að mestu fyrir sakir forvitni en líka vegna þess að mig grunaði að þessi vetvangur yrði nýttur til þess að gagnrýna sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda á tímum Covid 19 sem og varð raunin. Ég endaði á því að sitja uppi á sviði með Stefáni fyrir framan allt að 200 íhaldsmenn. Umræðurnar voru líflegar og að ég held nokkuð skemmtilegar og enginn, hvorki Stefán né fólk út í sal sýndi gamla sósíalistanum annað en kurteisi sem jaðraði við hlýleika. Umræðurnar voru býsna málefnalegar fyrir utan nokkrar mishepnaðar tilraunir undirritaðs til þess að vera fyndinn og óheppilegt orðalag mitt þegar ég reyndi að beina athyglinni að þeim möguleikum sem fyrirtæki og stofanir hafa til þess að fylgjast með starfsmönnum sínum á þann máta að líkist því sem lýst er í 1984.“
Kári hafði sagt í viðtalinu frá skilyrðum fyrirtækisins að tölvubúnaður kæmi frá Amgen.
„En eitt af því sem þeir kröfðust til dæmis sem ég mótmælti var að allir starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar hefðu svokallaða Amgen-tölvu. Og þegar ég spurði, hvað eru Amgen-tölvur? Og ég fékk ekkert svar. Og nú eru allir starfsmenn í Sturlugötu 8, með tölvu frá Amgen, meira að segja konurnar sem vinna við að þrífa, í eldhúsinu og svo framvegis. Og hvað er þetta. Þetta eru tölvur sem eru með njósnabúnaði. Þetta eru tölvur sem eru með „spyware.“ Og þetta eru ekki bara tölvur, þetta eru míkrafónar. Það er hægt að hlusta á allt sem talað er í kringum þessar tölvur. Og þá geta menn sagt, er þetta ekki bara sjálfsagt, þetta er tæki sem þeir nota við vinnu sína í vinnunni. Er eitthvað sem á sér stað í vinnunni sem fyrirtækið má ekki vita um og svarið við því er auðvitað nei. Auðvitað eiga þeir að fá að vita um allt. En þarna ertu kominn alveg upp að línunni...“
„Það var óvarlegt af mér og býsna óheiðarlegt“
Hann útskýrir orð sín í yfirlýsingunni.
„Þegar ég á sínum tíma spurði hvaða eiginleika Amgen tölvan hefði umfram aðrar tölvur fékk ég engin svör. Þegar ég dróg í efa að svona tölva myndi gagnast þeim sem í eldhúsinu vinna var þaggað niður í mér og sagt að allir starfsmenn, án undantekingar, yrðu að hafa slíka tölvu. Það var óvarlegt af mér og býsna óheiðarlegt í annars góðum samræðum að gefa það í skyn að Amgen gæti notað tölvurnar til þess að njósna.“
Þá hrósar hann Amgen fyrir að hafa gefið Landspítalanum jáeindaskanna og segulómunartæki, auk þess að hafa aðstoðað yfirvöld í covid-faraldrium.
„Ég vil benda á að Amgen hefur gert mjög vel við starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar og hefur hagað sér eins og fyrirtæki með háa siðferðisstaðla og mikla samfélagslega ábyrgð,“ segir Kári nú.
Kári er þó ósáttur við þann fjölda frétta sem mbl.is hefur skrifað upp úr orðum hans.
„Ég vil hins vegar leggja á það áherslu að ekkert í samræðum mínum við Stefán benti til þess að hann mydi skreyta mbl.is með bitum af bókspjallinu á hverju degi í heila viku og hann bar enga af fréttunum sem hann skrifaði upp úr því undir mig.“
Yfirlýsing Kára í heild
Stefán Einar Stefánsson hringdi í mig fyrir nokkrum vikum og bað mig að koma í bókaklúbb sem hann stjórnar að ræða 1984 eftir George Orwell. Ég féllst á að koma að mestu fyrir sakir forvitni en líka vegna þess að mig grunaði að þessi vetvangur yrði nýttur til þess að gagnrýna sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda á tímum Covid 19 sem og varð raunin. Ég endaði á því að sitja uppi á sviði með Stefáni fyrir framan allt að 200 íhaldsmenn. Umræðurnar voru líflegar og að ég held nokkuð onkemmtilegar og enginn, hvorki Stefán né fólk út í sal sýndi gamla sósíalistanum annað en kurteisi sem jaðraði við hlýleika. Umræðurnar voru býsna málefnalegar fyrir utan nokkrar mishepnaðar tilraunir undirritaðs til þess að vera fyndinn og óheppilegt orðalag mitt þegar ég reyndi að beina athyglinni að þeim möguleikum sem fyrirtæki og stofanir hafa til þess að fylgjast með starfsmönnum sínum á þann máta að líkist því sem lýst er í 1984. Í 1984 er lýst tæki sem var komið fyrir í ívörustöðum allra manna sem fylgdist með því sem gerðu og sögðu. Í hita umræðunnar um ráðstjórnina sem er lýst í bókinni sagði ég frá því að Amgen krafðist þess að allir starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar væru með fartölvu sem þeir útvega, svo kallaða Amgen tölvu. Þegar ég á sínum tíma spurði hvaða eiginleika Amgen tölvan hefði umfram aðrar tölvur fékk ég engin svör. Þegar ég dróg í efa að svona tölva myndi gagnast þeim sem í eldhúsinu vinna var þaggað niður í mér og sagt að allir starfsmenn, án undantekingar, yrðu að hafa slíka tölvu. Það var óvarlegt af mér og býsna óheiðarlegt í annars góðum samræðum að gefa það í skyn að Amgen gæti notað tölvurnar til þess að njósna. Ég hef ekkert í höndunum sem bendir til þess að Amgen hafi notað tölvurnar til þess að njósna eða hafi slikt í huga og ég er handvissum að þeir standa í þeirri trú að svona tölva geri jafnvel kótilettiurnar betri á bragið. Ég vil hins vegar leggja á það áherslu að ekkert í samræðum mínum við Stefán benti til þess að hann mydi skreyta mbl.is með bitum af bókspjallinu á hverju degi í heila viku og hann bar enga af fréttunum sem hann skrifaði upp úr því undir mig.
Ég vil benda á að Amgen hefur gert mjög vel við starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar og hefur hagað sér eins og fyrirtæki með háa siðferðisstaðla og mikla samfélagslega ábyrgð. Sem dæmi: 1.Amgen gaf Landspítalaum jáeindaskann, 2. Amgen keypti kraftmikið segulómunartæki sem er á Landspítalanum, 3. þegar ég leitaði til yfirmanna Amgen í Covid leyfðu þeir mér að breyta Íslenskri erfðagreiningu í veirustofnum til þess að aðstoða sóttvarnaryfirvöld, 4. Amgen hefur leyft Íslenskri erfðagreiningu að raðgreina sýni í greiningarskyni fyrir Landspítalann fyrir hundruðir milljóna á ári hverju.
Komment