
Kvikmyndahús á Íslandi hafa átt í miklum rekstrarerfiðleikum allt frá heimsfaraldrinum árið 2020. Smárabíó, stærsta kvikmyndahús landsins utan Sambíóanna, hefur þó náð að skila hagnaði síðustu þrjú ár. Fyrirtækið Smárabíó ehf. rekur bæði bíósýningar og skemmtisvæði í Smáralind, en í ársreikningi kemur ekki fram sundurliðun tekna, þannig að ekki er ljóst hversu stór hluti þeirra kemur frá kvikmyndahúsarekstrinum. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins.
Heildartekjur Smárabíós ehf. námu 1.105 milljónum króna árið 2024, sem er svipuð upphæð og árið áður. Til samanburðar voru tekjurnar 955 milljónir á verðlagi ársins 2018 þegar félagið rak bæði Smárabíó og Háskólabíó. Hagnaður félagsins á síðasta ári var 46 milljónir króna. Framlegð lækkaði úr 66,6% árið 2023 í 58,9% árið 2024 en var að meðaltali 63,8% á tímabilinu 2018–2024.
Laugarásbíó, sem einnig telst til stærri kvikmyndahúsa landsins, hefur ekki gengið jafn vel. Kvikmyndahúsið ehf., sem rekur Laugarásbíó, velti 256 milljónum króna árið 2024, sem er lítilsháttar aukning frá fyrra ári. Árið 2018, á verðlagi þess tíma, námu tekjur 265 milljónum króna.
Rekstur Laugarásbíós hefur verið taprekstur síðan 2019, þegar félagið skilaði síðast hagnaði, þá 173 þúsund krónum. Árið 2024 nam tap félagsins 12 milljónum króna. Framlegð hefur þó haldist stöðug og var 59,6% í fyrra, samanborið við 60,7% árið 2018. Að meðaltali hefur framlegð félagsins verið 60,8% síðustu ár.

Komment