
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir bendir á mikilvægi þess að börn og ungmenni fái kynfræðslu sem er sniðin að aldri og þroska. Hún segir, í nýlegri Facebook-færslu, slíka fræðslu vera eina áhrifaríkustu leiðina til að kenna ungu fólki að bera kennsl á kynferðislegt ofbeldi sem það kann að verða fyrir, og þar með auka líkurnar á að það treysti sér til að segja frá. Í færslunni er hún að bregðast við frétt RÚV vegna Múlaborgarmálsins en þar er rætt við Indíana Rós Ægisdóttir er kynfræðingur hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
„Það segir sig sjálft að kynfræðsla sem er sniðin að aldri og þroska barna og ungmenna er besta leiðin til að kenna þeim að koma auga á og greina kynferðisofbeldi sem þau verða sjálf fyrir – sem gerir það líklegra að þau segi frá,“ segir Ugla og vísar til þess að rannsóknir staðfesti þetta.
Hún nefnir samstarfskonu sína hjá Reykjavíkurborg, Indíönu, sem rætt er við í frétt RÚV og segir hana hafa mikla þekkingu á málefninu og dregur fram að öll gögn sýni mikilvægi fræðslunnar. „Það er því ofar mínum skilningi að fólk vilji ekki að unga fólkið okkar læri að segja frá,“ skrifar Ugla og bendir á að mörg dæmi séu um að fólk úr eldri kynslóðum hafi borið slíka reynslu með sér fram á fullorðinsár og jafnvel aldrei sagt frá.

Komment