
Bóndi í norðausturumdæmi lét flytja kú til sláturhúss á Akureyri fimm dögum eftir burð. Hún drapst á leiðinni en greint er frá þessu í tilkynningu frá MAST.
Það var mat stofnunarinnar að bóndanum hefði átt að vera ljóst að kýrin var ekki flutningshæf vegna einkenna sem hún sýndi. Lögð var stjórnvaldssekt að upphæð 260.000 kr. á bóndann.
MAST greinir einnig frá því að fótbrotin kvíga hafi fundist í fjárhúshlöðu á bæ sem hafði verið brotin í 2-3 daga áður en eftirlitsmenn bar að garði. Ekki hafði verið kallaður til dýralæknir. Kvígan var aflífuð að kröfu MAST og lögð stjórnvaldssekt á bóndann að upphæð 210.000 kr. Einnig voru lagðar á hann dagsektir að upphæð 15.000 kr. á dag til að knýja á um bætta dýravelferð í búskapnum.
Þá stöðvaði Matvælastofnun rekstur hestaleigu í suðausturumdæmi í apríl vegna brota á dýravelferð en rekstraraðilinn hélt áfram rekstrinum. Dagsektir að upphæð 10.000 kr. á dag voru lagðar á hann til að knýja á um lokun hestaleigunnar og bæta úr velferð hrossanna.
MAST greinir einnig frá því að nokkrir katta- og hundaeigendur hafa verið svipt dýrum sínum vegna vanrækslu.
Komment