
Uppsjávarafli Brims á þriðja ársfjórðungi var sá mesti sem fyrirtækið hefur fengið á tímabilinu síðustu tíu ár. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins, þar sem tölur eru bornar saman frá árinu 2015. Samtals veiddust 39.546 tonn af uppsjávarafla. Austurfrétt fjallaði um málið.
Vel heppnuð makrílvertíð og óvenju góð kolmunnaveiði voru stærstu ástæður þessa góða árangurs. Skip Brims veiddu 10.300 tonn af kolmunna, sem er óvanalegt á tímabilinu júlí til september, en þau héldu á kolmunnamið í lok ágúst. Þá voru veidd 10.632 tonn af síld og 18.616 tonn af makríl. Alls voru unnin 15.600 tonn í uppsjávarvinnslunni á Vopnafirði, samanborið við 12.000 tonn á sama tíma í fyrra.
Eitt bolfiskskipa félagsins, Þerney, var notað við makrílveiðar í sumar og jók það afraksturinn enn frekar.
Afkoman af uppsjávarveiðum var einnig sterk, að mestu leyti vegna hárra verða á makrílmörkuðum og góðrar nýtingar í vinnslunni á Vopnafirði. Hagnaður af uppsjávarveiðum það sem af er árinu nam 33,6 milljónum evra, eða tæpum fimm milljörðum króna, og hefur aðeins verið meiri árin 2022 og 2023 þegar mikil loðnuveiði var.
Sé horft til fyrstu níu mánaða ársins nam uppsjávarafli Brims um 77 þúsund tonnum, sem jafnast á við meðalafla. Þar vegur það þungt að engin loðna veiddist. Einnig eru blikur á lofti vegna spár um aflasamdrátt í kolmunna og makríl samkvæmt alþjóðlegri veiðiráðgjöf.

Komment