
Lóðir við Fjarðargötu og Ránargötu á Seyðisfirði, sem liggja bæði nálægt ferjuhöfninni og húsbílasvæði bæjarins, hafa lengi verið í óhirðu. Svæðið blasir við gestum sem koma til landsins með Norrænu eða skemmtiferðaskipum og hefur óásjálegt ástand þar verið tilefni athugasemda. Einnig fylgir því aukin hætta í tengslum við flóð og getur torveldað björgunar- og hreinsunarstarf. Þetta kemur fram í umfjöllun Austurfréttar.
Nú hefur Múlaþing, í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Austurlands, gefið eigendum og umráðamönnum svæðisins tveggja mánaða frest til að hreinsa lóðir sínar. Hreinsun skal lokið eigi síðar en 26. janúar næstkomandi.
Eigendum er gert að fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, járnarusl og aðra óskráða hluti sem liggja á svæðinu. Krafan byggir á reglum um umgengni, þrifnað utanhúss og meðhöndlun úrgangs.
Verði hreinsun ekki framkvæmd innan tilskilins tíma mun sveitarfélagið sjálft láta fjarlægja og farga hlutunum.

Komment