
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur gengið frá samningi við núverandi leigusala um áframhaldandi leigu á þremur þyrlum fyrir Landhelgisgæslu Íslands til næstu sjö ára en greint er frá því í tilkynningu frá ríkinu.
„Nýr leigusamningur fyrir björgunarþyrlur Landhelgisgæslu Íslands er ákaflega þýðingarmikill en með honum er viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar til leitar- og björgunar tryggð innan íslensku efnahagslögsögunnar næstu sjö árin hið minnsta. Þyrlurnar hafa gegnt lykilhlutverki við leit og björgun, sjúkraflutninga og almannaöryggi. Það er ljóst að þyrlurnar hafa skipt sköpum við afar krefjandi björgunaraðstæður bæði á sjó og landi,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra um málið.
„Þessi samningur endurspeglar áherslu ríkisstjórnarinnar í öryggismálum. Síðasta ár var metár í útköllum, þar af var helmingur þeirra vegna sjúkraflutninga. Við þurfum að tryggja öryggi fólksins í landinu.“
Samkvæmt dómsmálaráðuneytinu eru þyrlurnar af gerðinni Airbus Super Puma H225 og komu í flugflota Landhelgisgæslu Íslands á árunum 2019-2021. Þær eru afar vel útbúnar til leitar- og björgunarstarfa á norðlægum slóðum og verður með nýja samningnum útbúnaðurinn bættur enn frekar.
Þá er greint frá því að umsamin leigufjárhæð fyrir öll 7 árin sem þyrlurnar eru leigðar sé um 56 milljónir evra, eða sem samsvarar rúmum átta milljörðum íslenskra króna
Komment