
Helmingi færri gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina en gerðu nóttina á undan eða fjórir talsins. Á tímabilinu 17:00 til 05:00 í morgun voru 78 mál skráð í kerfi lögreglunnar en hér má sjá nokkur dæmi.
Talsverð drykkja var á fólki í nótt en lögreglu barst nokkrar tilkynningar um sótölvað og ósjálfbjarga fólk á almannafæri víðsvegar í borginni. Ráðstafanir voru gerðar til þess að hjálpa fólkinu.
Lögreglunni sem sinnir útköllum í Vesturbæ, Miðborg, Hlíðum, Laugardal, Háaleiti og á Seltjarnarnesi barst tilkynning um grunsamlega tösku. Reyndist hún innihalda bæði vopn og fíkniefni. Virðist því sem seinheppinn glæpamaður hafi gleymt töskunni á glámbekk en eflaust getur hann reynt að nálgast töskuna í tapað/fundið á lögreglustöðinni við Hlemm.
Sömu lögreglu barst tilkynning um harðan árekstur milli tveggja bifreiða en annar ökumaðurinn hljóp á brott. Málið er í rannsókn.
Fimm ökumenn voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þá var ein kona handtekin grunuð um að vera ölvuð á rafhlaupahjóli.
Lögreglan sem starfar í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi handtók fjóra ökumenn vegna gruns um að aka undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna en tveir þeirra reyndust einnig sviptir ökuréttindum. Einn þeirra var vistaður í fangaklefa í ljósi þess að hann var að auki grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna.

Komment