Bassaleikarinn og Seyðfirðingurinn Logi Helguson er allt annað en sáttur við flokkinn sem hann kaus í síðustu Alþingiskosningum en hann greinir frá því á Facebook að hann hafi kosið Flokk fólksins. Óhætt er að segja að sá flokkur sé ekki sá vinsælasti eftir að Fjarðarheiðargöng voru færð aftar á forgangslista þegar kemur að forgangsröðun jarðganga meðan Fljótagöng voru færð efst á listann.
„Í tilefni dagsins ætla ég að biðjast afsökunar á einu sem hefur legið þungt á samviskunni undanfarið og ígerst sérstaklega síðustu vikuna,“ skrifar Logi um málið. „Ég tel mig skynsaman einstakling og ganga nokkuð heilan til skógar. Ég er langt frá því að fylgjast mikið með pólitík og ég kaus Flokk Fólksins í síðustu kosningum!“
Logi viðurkennir að þetta hljómi eins og brandari en sé það alls ekki,heldur sé þetta staðreynd sem elti hann eins og óþægilegt leyndarmál í hvert skipti sem ráðherrar flokksins koma með hvert annað skammastrikið á eftir öðru.
Flokkur fólksins eins og lítið barn
Logi segir að hingað til hafi það nú ekkert verið það alvarlegt þar sem þetta hefur verið eins og að horfa á lítið barn gera fyrstu mistökin sín, þar að segja fyndið og krúttlegt.
„En síðasta útspilið – Fjarðarheiðargögnin – er svo skammarlegt að ég verð að biðja Seyðfirðinga, Múlaþing, Austfirðinga og hreinlega allt landið formlega afsökunar á því að hafa með mínu atkvæði stuðlað að þessum skrípaleik sem okkur er boðið uppá. Kannski er atkvæðið mitt bara „tittlingaskítur“ sem skipti litlu sem engu máli, en ég lofa að hugsa mig betur um næst. Kannski er bara betra að ég kjósi ekki neitt – eins og ég hef stundum gert – og mæti þá alls ekki á kjörstað,“ heldur bassaleikarinn áfram.
„En eitt veit ég þó með fullri vissu: Ég mun ekki kjósa aftur Flokks Fokksins.“


Komment