
Litlu mátti muna á nýársdegi þegar slökkviliðsmenn á Las Palmas á Kanarí-eyjum björguðu lífi barns sem glímdi við alvarlega öndunarerfiðleika en ekki er greint frá þjóðerni eða aldri barnsins.
Forsaga málsins er sú að foreldrar barnsins urðu varir við að barnið átti erfitt með andardrátt og ákváðu að koma barninu á sjúkrahús með hraði. Á leiðinni þangað mættu foreldrarnir slökkviliðsbíl frá Arnaga-stöðinni og báðu slökkviliðsmennina um borð um aðstoð en þetta gerðist skömmu eftir miðnætti á nýársdag.
Slökkviliðsmennirnir náðu að beita skyndihjálp til að halda lífi í barninu á meðan sjúkrabíll mætti á vettvang til að koma barninu á sjúkrahús. Samkvæmt upplýsingum frá fjölmiðlum þar í landi er líklegt að barnið hefði látið lífið ef ekki hefði verið fyrir hjálp slökkviliðsmanna.
Samkvæmt slökkviliðsstjóranum á Arnaga-stöðinni var atvikið sterk áminning um að þjálfun í skyndihjálp skipti höfuðmáli.

Komment