
Heimir Már Pétursson, blaðafulltrúi Flokks fólksins, var framan af sem fylgitungl Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins.
Alls staðar þar sem Inga fór var Heimir innan armslengdar formannsins og tilbúinn að svara því sem þurfti. Svo hvarf Heimir Már jafn skyndilega og hann birtist og sagði fátt af honum. Slúðrað var um að hann væri fallinn í ónáð, eins og gjarnan gerist hjá fyrirferðarmiklum ráðamönnum. En þau undur og stórmerki gerðust að Heimir birtist skyndilega í Silfrinu í Ríkisútvarpinu til að verja jarðgangaflækju Eyjólfs Ármannssonar ráðherra samgöngumála sem virðist ekki hafa treyst sér til að svara fyrir ósköpin.
Framganga og vanstilling blaðafulltrúans í þættinum var með miklum endemum. Hann var í senn hávær og jafnvel ruddalegur þar sem hann krafði Stefán Pálsson varaborgarfulltrúa ítrekað svara um afstöðu hans til Sundabrautar. Gárungarnir segja að Inga Sæland gerði best í að halda Heimi karlinum áfram til hlés …
Komment