
Alls gista fjórir í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Sextíu og fimm mál voru skráð í kerfum lögreglunnar frá klukkan 17:00 í gær til 05:00 í morgun. Mest var um að fólk væri að keyra undir áhrifum. Hér eru nokkur dæmi um verkefni lögreglunnar.
Lögreglan á Hverfisgötu barst tilkynning um tvo óvelkomna menn á hóteli sem voru að stofna til slagsmála. Voru þeir báðir handteknir og vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Sama lögreglan stöðvaði nokkra ökumenn sem reyndust ölvaðir eða undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra olli umferðaróhappi og reyndist bæði réttindalaus og undir áhrifum fíkniefna. Var hann því handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Þá gaf lögreglan sig á tal við mann sem reyndist hafa fíkniefni á sér. Neitaði maðurinn að framvísa skilríkjum eða segja til nafns. Endaði hann þó á því að vera samvinnuþýður og var frjálst að fara að lokinni skýrslutöku.
Lögreglan sem annast verkefni í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi sinnti útkalli vegna manns sem féll af rafmagnshlaupahjóli. Reyndist hann vera ölvaður en hann var laus að sýnatöku lokinni.
Lögregan sem sinnir útköllum í Kópavogi og Breiðholti barst tilkynning um ölvaða konu með börnin sín. Engar frekari upplýsingar eru gefnar upp um málið í dagbók lögreglunnar.
Komment