
Alls voru 86 mál bókuð í kerfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, frá klukkan 17:00 í gær, til 05:00 í morgun. Sex gista í fangageymslu lögreglunnar eftir nóttina. Hér koma nokkur dæmi um þau mál sem bókuð voru á tímabilinu.
Lögreglan sem annast verkefni í Austurbænum, Vesturbænum, miðbæ Reykjavíkur og Seltjarnarnes, handtók aðila sem var grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Var hann vistaður í fangaklefa á meðan rannsókn málsins fer fram.
Bílaþjófur var nappaður við iðju sína eftir að tilkynning barst um óþokka sem var að brjótast inn í bifreiðar. Lögreglan handtók þjófinn og skellti honum í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Tilkynning barst vegna líkamsárásár á veitingahúsi í miðborginni og er málið í rannsókn.
Samkvæmt dagbók lögreglunnar barst lögreglunni sem starfar í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi, tilkynning um líkamsárás. Ekki er tilgreint hvar sú árás átti sér stað en málið er í rannsókn.
Sömu lögreglu barst tilkynning um umferðarslys þar sem tvær bifreiðar skullu saman. Var önnur þeirra óökufær eftir atvikið og urðu einhver slys á fólki en þegar dagbókin er skrifuð var ekki vitað um alvarleika áverka.
Lögreglan sem annast útköll í Kópavogi og Breiðholti stöðvaði ökumann vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Reyndist hann einnig sviptur ökuréttindum og var þar að auki með hníf meðferðis. Var hann laus eftir skýrslutöku og hefðbundið ferli, eins og það er orðað í dagbókinni.
Lögreglan sem sinnir Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ stöðvaði tvo ökumenn í akstri, vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Voru hvorugir þeirra með ökuréttindi en þeir voru lausir eftir hefðbundið ferli. Enn einn var stöðvaður í akstri grunaður um akstur sviptur ökuréttindum.
Komment