
Samstöðufundur með palestínsku þjóðinni verður haldinn í Norræna húsinu laugardaginn 29. nóvember klukkan 15:00. Fundurinn er liður í alþjóðlegum samstöðudegi með Palestínumönnum, sem hafa verið haldinn síðan árið 1977 í samræmi við ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Að fundinum stendur Félagið Ísland–Palestína.
Á dagskrá fundarins verða ávörp, fræðsla og tónlistarflutningur. Sveinn Rúnar Hauksson verður fundarstjóri. Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, flytur einnig ávarp og Ragnheiður Gröndal mun flytja tónlistaratriði. Einnig mun Ikram Zubaydi frá Tulkarem í Palestínu flytja ræðu. Þá verður nýtt eintak málgagnsins Frjáls Palestína kynnt á fundinum.
Í fréttatilkynningu frá Félaginu Ísland–Palestína segir að tilgangur fundarins sé að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni í þeirra baráttu fyrir sjálfsákvörðunarrétti og mannréttindum. Þar er fjallað um langvarandi átök og ástandið í Palestínu, þar sem almenningur sætir alvarlegum mannréttindabrotum, meðal annars vegna hernáms og hindrana á aðgengi að hjálparaðstoð.
Félagið segir að Íslendingar hafi siðferðilega og lagalega skyldu til að bregðast við og sýna samstöðu, meðal annars með þátttöku í slíkum viðburðum og með því að auka umræðu og fræðslu um stöðu mála á svæðinu.
Fundurinn er opinn öllum sem vilja sýna samstöðu og kynna sér málefni Palestínu.

Komment