
Rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á líkamsárás þriggja grímuklæddra aðila á Írisi Vönju Valgeirsdóttur er á lokametrunum.
Mannlíf sagði frá grófri líkamsárás þriggja manneskja sem réðust á Írisi Vönju Valgeirsdóttur á heimili hennar á Akureyri fyrir rúmlega tveimur mánuðum síðan.

Hinir grímuklæddu óþokkar notuðu kúbein til þess að brjóta sér leið inn um svalardyrnar á heimili Írisar og létu svo höggin dynja á henni, meðal annars með kúbeininu. Íris Vanja hlaut kúlu á höfði, glóðarauga, mar við gagnauga, rifbeinsbrot og mar víða um líkamann, við árásina. Þá átti hún erfitt með tal og skrif þegar Mannlíf heyrði í henni fyrir rúmri viku.
Írís sagðist vera afar óánægð með lögregluna í málinu en hún gagnrýndi bæði hæg viðbrögð og lélega ráðgjöf. Í skriflegu svari til Mannlífs segist lögreglan á Norðurlandi harma upplifun Írisar en ekki geta tjáð sig frekar um málið. Þó gat hún sagt að rannsókninni miði vel og að einhverjir aðilar hafi verið handteknir.
„Rannsókn málsins er á lokametrunum og já það voru handteknir aðilar í málinu en við getum ekki upplýst hverjir það voru.
Leitt er að heyra af slæmri upplifun brotaþola í málinu en að öðru leyti getum við ekki tjáð okkur um rannsóknina.“
Komment