Mögulegt mansal var stöðvað á Keflavíkurflugvelli í lok ágústmánaðar en þá voru fjórtán manns frá Asíu stöðvaðir með fölsuð skilríki. Heimildin greinir frá málinu.
Samkvæmt fréttinni er fólkið í úrræði á afmörðu svæði á Íslandi en það má ekki koma að fullu inn í landið eða halda för sinni áfram. Fólkið ætlaði sér að fara til Kanada að sögn lögreglu. Ómar Annisius, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, segist ekki geta útlokað að um mansal sé að ræða.
Samkæmt heimildum Heimildarinnar er fólkið allt frá Kína en notaðist við skilríki frá mörgum mismunandi löndum í Asíu.
Ómar vildi ekki staðfesta hvort einhverjir hefðu mögulega komist í gegn en lögreglan á í samstarfi við Europool varðandi málið.
„Það er óvenjulegt að sjá svona marga koma á svona stuttum tíma, svo sannarlega. Það sem er í raun sami áfangastaðurinn – Kanada í þessu tilfelli. Þetta setur gríðarlegt álag á ákveðna innviði og á lögregluna. Þarna mæðir rosa mikið á að við þurfum að hafa úrræði til þess að geta tekist á við verkefni af þessari stærðargráðu,“ sagði Ómar.
„Við erum kannski fyrst að sjá núna að það sé verið að herja svona grimmt á Ísland. Ísland er náttúrulega þessi tengivöllur við bæði Evrópu og Bandaríkin. Þannig að þarna eru menn að reyna að koma sér í gegn og nýta sér flugstöðina til að reyna að komast á áfangastað. En við erum staðráðin í því að standa vaktina og erum að beita þeim mótvægisaðgerðum sem við getum – við höldum bara áfram með okkar baráttu.“
Komment