
Sautján ára gamall drengur hefur hlotið átta ára fangelsisdóm fyrir að hafa orðið Bryndísi Klöru Birgisdóttur að bana á Menningarnótt í fyrra.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Málið fór fram á bak við luktar dyr vegna ungs aldurs ákærða, sem var aðeins sextán ára þegar verknaðurinn átti sér stað. Dómurinn hefur ekki verið birtur opinberlega og því liggja rökstuðningur og forsendur hans ekki fyrir að svo stöddu.
Drengurinn var ákærður í nóvember síðastliðnum fyrir manndráp og tvær tilraunir til manndráps, þar sem hann réðst með hnífi á þrjú ungmenni í miðbæ Reykjavíkur að kvöldi Menningarnætur í fyrra skömmu fyrir miðnætti.
Í ákærunni kom fram að fimm ungmenni hefðu verið í bifreið þegar árásin átti sér stað. Drengurinn braut rúðu bifreiðarinnar og stakk ungan pilt sem sat inni í bílnum, meðal annars í öxl og brjóstkassa. Við það flúðu hin ungmennin bifreiðina en ein stúlka varð eftir.
Drengurinn réðst þá á hana og stakk hana í öxl, handlegg og hendi. Að lokum beindi hann árásinni að Bryndísi Klöru og stakk hana í hjartað. Hún lést nokkrum dögum síðar af áverkum sínum.
Komment