
Kristinn Hrafnsson segir Ísland vera „óligarkaland“ þar sem lögreglan er í þjónustu auðmanna.
Wikileaks-ritstjórinn Kristinn Hrafnsson er einn af þeim fjölmörgu Íslendingum sem tjáð hafa sig á samfélagsmiðlunum um þátt Kveiks um persónunjósnir Björgólfs Thors Björgólfssonar. Segja má að þátturinn hafi sjokkerað þjóðina enda slíkar uppljóstranir ekki daglegt brauð hér á landi.
Kristinn sagði í færslu sem hann birti á Facebook í gær að Ísland væri „óligarkaland“.
„Ísland er óligarkaland þar sem efsta lagið – peningavaldið, ræður öllu því sem það vill ráða. Í óligarkalöndum er lögreglan í þjónustu auðmanna. Nú er upplýst að fyrrverandi og starfandi lögreglumenn voru í þjónustu Björgólfs Thors fyrir rúmum áratug.“
Þá minnir Kristinn á nýlegra dæmi um njósnir Jóns Óttars Ólafssonar:
„Nýlegra dæmi er vitaskuld þjónusta fyrrverandi og núverandi lögreglumanna við Þorstein Má Baldvinsson, aðaleiganda Samherja. Sami einstaklingur, Jón Óttar Ólafsson, kemur við sögu á báðum stöðum en í tilfelli Samherja gat fyrirtækið einnig fengið auðsveipa þjónustu frá embætti lögreglunnar á Norðurlandi Eystra, meðal annars til pólitískra ofsókna gegn blaðamönnum.“
Að lokum setur ritstjórinn aukinn vopnaburð lögreglunnar saman við hækkun á þjónustustigi við auðmennina.
„Á sama tíma hefur verið aukið við vopnaburð lögreglunnar og þrýst á um auknar valdheimildir til hennar. Það verður ekki metið öðruvísi en sem hækkun á þjónustustigi við óligarkana.“
Komment