
Meirihluti stjórnar RÚV hefur sett fyrirvara við þátttöku í Eurovision.
Slóvenía hefur látið Samband sjónvarpsstöðva Evrópu vita að þjóðin hyggist sniðganga Eurovision söngkeppnina 2026, ef Ísrael verði leyft að keppa. Samkvæmt formanni stjórnar RÚV, hefur meirihluti stjórnarinnar einnig sett fyrirvara um þátttöku í keppninni.
Stefán Jón Hafstein, formaður stjórnar RÚV, skrifaði athugasemd í lokuðum Facebook-hópi sem snýr að sniðgöngu á ísraelskum vörum og fleiru tengdu andstöðu við þjóðarmorðinu á Gaza. Hafði Stefán Jón verið hlekkjaður við færslu um ákvörðun Slóveníu en í færslunni var þess óskað að þetta yrði einnig gert hér á landi.
Stefán Jón skrifaði við færsluna eftirfarandi athugasemd og staðfestir þar með að stjórn RÚV setji einnig fyrirvara um þátttöku í Eurovision að ári.
„Til upplýsingar: Meirihluti stjórnar Rúv hefur sett fyrirvara um þátttöku vegna þessa máls og látið Samband sjónvarpsstöðva Evrópu vita af þeim fyrirvara.“
Töluverð andstaða var við þátttöku Heru Bjarkar Þórhallsdóttur í Eurovision árið 2024 og VÆB í ár, en margir vildu að RÚV sniðgengi keppnina vegna þjóðarmorðs Ísraela en RÚV hefur síðustu tvö ár ákveðið að taka þátt þrátt fyrir gagnrýnina.
Komment