
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur nú lagt fram frumvarp sem myndi gera hunda- og kattahald leyfilegt í fjölbýli.
Núgildandi lög kveða á um að hunda- og kattahald sé óheimilt í fjölbýli nema með samþykki annarra eigenda húsnæðisins en nái frumvarpið fram að ganga þarf þess ekki lengur. Þó geti húsfélag sett reglur um gæludýrahald og lagt bann á slíkt með samþykki 2/3 hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, í stað einfalds meirihluta.
Var sjálf með þrjá hunda í íbúð sinni
Árið 2018 vakti DV athygli á því að Inga Sæland, þá þingkona í stjórnarandstöðu, hafi þá haldið að minnsta kosti þrjá hunda í íbúð sinni sem hún leigði af Brynju – hússjóði Öryrkjabandalagsins en á heimasíðu Brynju er það margítrekað að stranglega sé bannað að halda gæludýr í íbúðunum. Tekið var fram í fréttinni að Brynja tæki mjög strangt á slíku gæludýrahaldi í mörgum tilvikum og nefnt er dæmi um öryrkja sem var gert yfirgefa íbúð sína þar sem hann var með hund í íbúðinni. Inga slapp þó með skrekkinn en hún á nú íbúðina, eftir að hafa keypt hana af Brynju en hún hafði leigt hana frá árinu 2011. Hafði hún þá brotið aðra reglu hjá Brynju, þar sem árstekjur hennar voru margfalt hærri en hámarks árstekjur þeirra öryrkja sem máttu leigja hjá Brynju.
Komment