Líkt og Mannlíf greindi frá fyrr í dag björguðu tvíburasystur, sundlaugarverðir á Egilsstöðum, litlu barni frá harmi í sundlauginni í bænum.
Tvíburasysturnar voru fljótar til er þær sáu að barn var í vandræðum og voru handtök systranna snör og örugg og allt fór vel að lokum.

Litla stúlkan sem tvíburasysturnar björguðu í sundlauginni á Egilsstöðum er aðeins fjögurra ára gömul og amar ekkert að henni eftir atburðinn sem betur fer.
Sundlaugargestur steig fram á Facebook til að hrósa sundlaugarvörðunum og sagði frá því að „tvær ungar konur voru að afgreiða, tvíburar og var önnur þeirra alltaf með augun fixeruð á vaktskjáum laugarinnar á meðan hin afgreiddi eða sýslaði.“
Tvíburasysturnar frá Egilsstöðum heita Katrín og Lísbet og eru þær Halldórsdætur. Þær eru tuttugu og tveggja ára gamlar og er þetta þriðja sumarið sem þær vinna saman í sundlauginni á Egilsstöðum.
„Okkur líkar vel að vinna hérna, en þetta er þriðja sumarið sem við vinnum í sundlauginni“ sagði Katrín í samtali við Mannlíf en hún og tvíburasystir hennar, Lísbet, æfa ekki sund þótt þeim finnist skemmtilegt að synda.

„Við erum að æfa fimleika á fullu, og erum bara íþróttamanneskjur“ sagði Katrín, en hún og Lísbet eru „í námi í iðjuþjálfun í Háskólanum á Akureyri“ en meðfram náminu starfa þær „sem fimleikaþjálfarar.“
Tvíburasysturnar Katrín og Lísbet eru báðar á því að námskeið þau sem þær hafa farið á í tengslum við starf sitt sem sundlaugaverðir á undanförnum árum hafi svo sannarlega komið sér vel í gær þegar litla stúlkan lenti í hættu en var bjargað af tveimur kraftmiklum og frábærum tvíburasystrum sem voru eðlilega afar glaðar yfir björguninni.

„Þetta fór vel og það er það sem skiptir öllu máli“ sagði Katrín og þurfti að ljúka símtalinu og halda áfram á vaktinni í sundlauginni á Egilsstöðum ásamt tvíburasystur sinni, Lísbet.
Komment